Ford hefur prófanir á hleðsluvélmenni sem auðveldar hreyfihömluðum að hlaða rafbíla

Núorðið þykir flestu fólki auðvelt að hlaða rafbílinn sinn í hleðslustöð en því miður getur það þó reynst sumum erfitt, til að mynda öldruðum eða hreyfihömluðum einstaklingum. Eitt af þróunarverkefnum Ford er svokallað hleðsluvélmenni sem gerir fólki kleift að hlaða rafbílinn sinn án þess að fara út úr bílnum.

Í stað lausrar snúru sem á það til að flækjast fyrir fólki er snúran fest við arm sem færist sjálfkrafa með aðstoð myndavélar og hreinlega stingur sjálfum sér í samband við bílinn. Notandinn þarf einungis að nota FordPass appið í símanum sínum til að hefja ferlið og fylgjast með stöðunni. Þegar bíllinn er fullhlaðinn aftengist hleðsluvélmennið sjálfkrafa og fer aftur á sinn stað í hleðslustöðinni.

Tæknin gagnast ekki eingöngu hreyfihömluðum heldur einnig öldruðum eða fólki sem á af einhverjum öðrum ástæðum erfitt með að koma rafbíl í hleðslu. Áhugavert er að hugsa til þess að með tilkomu sjálfakandi bíla og hleðsluvélmenna verður allt hleðsluferlið fullkomlega sjálfvirkt í framtíðinni. Þá getur eigandi bílsins hreinlega setið heima hjá sér, sent bílinn á næstu hleðslustöð og kallað hann svo til baka þegar hann er fullhlaðinn.

“Ford hefur það að leiðarljósi að allir einstaklingar komist leiðar sinnar án aðstoðar. Eins og staðan er núna getur verið erfitt fyrir ökumann að fylla bíl með eldsneyti eða að hlaða rafbíl. Hleðsluvélmennið gerir fólki það auðveldara fyrir og það þykir mörgum einstaklingum hjálplegt,” segir Birger Fricke hjá rannsóknar- og nýsköpunarsetri Ford í Evrópu.

Hleðsluvélmennið var þrófað hjá háskólanum í Dortmund, Þýskalandi, og í framtíðinni verður hægt að setja það upp á almennum bílastæðum eða við heimili fólks rétt eins og hleðslustöðvar eru nú settar upp. Verkefnið er hluti af áformum Ford um rafmagnsvæðingu og er nú þegar komið inn á borð hjá European charging network IONITY þar sem tæknin verður fínpússuð.